Hvað andarðu oft á mínútu? Ertu að reyna að telja? Ég er oft búin að reyna að telja öndunina hjá sjálfri mér en áður en mínútan er liðin er ég byrjuð að stjórna önduninni og anda hægar, sem er kostur.
Það er talið að við öndum svona 14-18 sinnum á mínutu. Það er misjafnt. Það ræðst af fjölmörgum hlutum eins og t.d. í hvernig formi við erum og hversu mikla streitu við upplifum það og það sinnið.
Það sem skiptir einnig máli er hvort við öndum grunnt eða djúpt. Flestum hættir okkur til að anda grunnt og bara efst inn í brjóstholið en nýtum ekki allt plássið sem er í boði. Sumir eiga reyndar erfitt með að anda djúpt vegna stífleika í líkamanum en það má þjálfa það eins og flest annað. Þetta getur líka verið vegna streitu.
Með djúpri og hægari öndun hægir á hjartslættinum, við slökum á og minnkum þannig steitu og jafnvel kvíða og hugurinn róast. Þannig náum við betri stjórn á aðstæðunum sem við erum í. Við fáum aukna orku. Að taka nokkra djúpa andardrætti er t.d. fín leið til að takast á við síðdegisslenið. Djúp öndun er líka oft fyrsta skrefið til að geta æft sig í að nærast í núvitund (mindful eating). Þannig fáum við til dæmis tækifæri til að meta hvernig okkur líður og hversu svöng eða södd við erum fyrir máltíð.
Hvernig á að anda djúpt?
Til að anda djúpt er gott að rétta úr hryggnum og slaka á í öxlum. Anda síðan rólega inn um nefið þannig að fyrst þenjist maginn út (þindin færist niður sjá mynd), síðan fyllirðu brjóstholið og síðast efsta hluta lungnanna, alveg upp í axlir (án þess að lyfta þeim upp að eyrum). Haltu loftinu inni í nokkrar sekúndur og hleyptu loftinu síðan rólega út um nefið þannig að loftið fari fyrst úr efsta hluta lungna, síðan úr brjóstholinu og síðan þrýstirðu maganum inn og upp til að losa allt loftið út. Það getur verið gott að setja hendur á maga og brjósthol til að finna hvernig þetta gerist til að byrja með. Prófaðu þetta nokkrum sinnum. Hvernig líður þér á núna?
Lengjum lífið, öndum sjaldnar.
Hefurðu heyrt um einnar mínútu öndun? Þá andarðu inn á 20 sekúndum, heldur loftinu inni í 20 sekúndur og andar frá þér á 20 sekúndum. Hvernig hljómar það? Áhugavert? Krefjandi? Ómögulegt?
Jógarnir segja að eftir því sem við öndum sjaldnar því lengur lifum við. Þá hlýtur einnar mínútu öndun að vera aðalmálið 😉 Áður en maður reynir við þessa öndun finnst mér nauðsynlegt að gera nokkrar vel valdar jógaæfingar til að opna brjóstholið vel og fara svo í góða slökun á eftir. Þá fyrst á ég séns í þessa öndun.
Við skulum byrja á að anda 4 sinnum á mínútu. Þá andarðu inn á 5 sekúndum, heldur loftinu inni í 5 sekúndur og andar frá þér á 5 sekúndum. Ef 5 sekúndur er of langur tími þá andarðu inn á færri sekúndum, heldur í jafnlangan tíma og andar frá þér í jafnlangan tíma t.d. 4 sek/4 sek/4 sek.
Prófaðu þetta núna. Andaðu djúpt að þér og teldu upp á 5, haltu loftinu inni og teldu upp á 5 og andaðu rólega frá þér og teldu upp á 5. Ef þú finnur fyrir svima þá stopparðu og andar eðlilega í nokkra andardrætti.
Gerðu þetta í 3-5 mínútur til að byrja með. Það eru 12-20 andardrættir, sem er það sem við öndum venjulega á einni mínútu. Ætli við séum þá búin að lengja lífið um nokkrar mínútur?
Njóttu dagsins,
Ragnheiður