Ertu ekki örugglega að taka lýsi eða eitthvað annað sem gefur þér D-vítamín?
Heilsuráð vikunnar er klassískt en eitt af þessum atriðum sem þarf alltaf að vera minna okkur á.
Lega landsins hefur áhrif
Ástæðan fyrir því að við erum með hærri ráðlagðan dagskammt en aðrir nágrannar okkar er lega landsins.
Sólin er nefnilega svo lágt á lofti hér á fallega landinu okkar yfir vetrarmánuðina að húðin nær ekki að mynda það D-vítamín sem við þurfum. Þó svo að þó að við myndum dvelja utandyra án sólarvarnar svo dögum skipti þá myndi það engu skipta. Réttu geislarnir koma ekki í réttu horni ( já ég sagði það, hugsaðu um gráðuboga) til að húðin myndi þennan nauðsynlega forvera D-vítamíns til að við getum nýtt okkur þessar aðferð sem íbúar nær miðbaug nýta sér.
Við getum hins vegar nýtt okkur þessa aðferð yfir sumartímann. Eitt sem þarf þó að hafa í huga er notkun sólarvarnar. Ég er ekki að mæla með að við hættum því en það er spurning hvort að við leyfum sólinni að skína á húðina í nokkrar mínútur áður en við berum á okkur sólarvörnina. Það verður þá að vera án þess að við brennum. Það er mælt með 1/3 til helmings tímans sem það tekur að brenna.. Fyrir suma sem ég þekki er það hreinlega nokkrar sekúndur og því er D-vítamín í formi lýsis eða öðru eina vitið.
Ráðleggingar – Hversu mikið er nóg?
Íslensku ráðleggingunum um næringu og mataræði var breytt árið 2015 og var þá ráðlagði dagskammturinn af D-vítamíni hækkaður. Nú er mælt með að allir frá 10 ára aldri taki 15 µg af D-vítamíni daglega og eldra fólk taki 20 µg (húðin tapar eiginleikanum til að mynda D-vítamín með aldri). Í einni matskeið (10ml) af lýsi voru um 18 µg síðast þegar ég athugaði það. Stundum er magn D-vítamíns gefið upp í alþjóðaeiningum (iu). Þá jafngilda 15 µg 600 iu og 20 µg 800 iu.
D-vítamínið er eina vítamínið sem er mælt með að við tökum inn ef við erum heilbrigð og borðum fjölbreytt fæði úr öllum fæðuflokkum (fyrir utan fólinsýru fyrir konur sem geta orðið barnshafandi).
Þar sem D-vítamín er fituleysanlegt vítamín getur það hlaðist upp í lifur og öðrum vefjum líkamans. Því er ekki mælt með hærri daglegum skömmtun en 100 µg fyrir fullorðna og 50 µg fyrir börn. Meira er því ekki endilega betra.
Hlutverk og skortseinkenni D-vítamíns
Helsta hlutverk D-vítamíns er að stýra magni kalks í blóði og því eru algengusta skortseinkennin tengd beinum þ.e. beinkröm hjá börnum og beinmeyra og beinþynning hjá fullorðnum. Vöðvaslappleiki er lika einkenni hjá fullorðnum enda er fjöldi D-vítamín viðtaka í vöðvum. Rannsóknir síðastliðinna ára hafa einnig tengt D-vítamínskort við sumar gerðir krabbameina, sjálfsofnæmissjúkdóma og suma smitsjúkdóma en þörf er á frekari rannsóknum á þessu sviði. Ekki hefur verið skorið úr því hvort kemur á undan skorturinn eða sjúkdómurinn.
Sumir vilja einnig meina að flensufaraldurinn myndi ekki ná þeim hæðum sem hann gerir á hverjum vetri ef allir pössuðu upp á að taka lýsi (fyrir þá bæði D-vítamin og omega-3 fitusýrur). Það gæti átt við rök að styðjast þar sem líkaminn safnar D-vítamíni sem er myndað í húðinni yfir sumartímann en smám saman gengur á birgðirnar. Rétt er að taka fram að ekki er hægt að ofhlaða sig af D-vítamíni úr sólinni. Ástæðan er að forveri D-vítamíns er myndaður í húð og við tekur flókið líffræðilegt ferli. D-vítamín hagar sér reyndar frekar eins og hormón heldur en vítamín. En það er önnur saga og lengri 🙂
Ég hvet þig því til að gæta að því að inntaka á D-vítamíni sé hluti af þínum daglegu venjum. Við breytum ekki legu landsins sem við búum á 🙂
Njóttu dagsins,
Ragnheiður
Þrátt fyrir þetta klassíska næringarráð þá er ég ekki hætt hugsa um hvernig fólk nærist í núvitund. Skráðu þig hér fyrir neðan ef þú vilt vita meira.