Hvað nýttirðu þér margar mínútur í slökun í síðustu viku?
Þegar ég tala um slökun þá á ég við þetta stig á milli vöku og svefns þar sem við náum að endurnæra huga, líkama og sál. Slökun sem gerir okkur kleift að sleppa allri streitu og spennu úr líkamanum. Slökun sem við njótum eftir góðan jógatíma. Þessi slökun þar sem við upplifum okkur endurnærðari en eftir nætursvefn. Það gefast kannski ekki mörg tækifæri til þess háttar slökunar og kannski er þetta eitt af þessum atriðum sem er hægara sagt en gert.
Viltu láta leiða þig í gegnum slökun frekar en að lesa um hana? – Smelltu þá hér
Ávinningur af slökun
Slökun gefur okkur tækifæri til að leyfa þreytu að líða úr okkur, að gefa líkamanum tækifæri til að endurnýjast. Slökun losar um streitu og spennu í líkamanum. Við verðum betur í stakk búin til að takast á við streitu dagsdaglegs lífs. Við lærum inn á okkar líkama og lærum betur að höndla streitu og sleppa. Líkaminn lærir inn á þetta ástand og við getum nýtt okkur það í öðrum aðstæðum. Sumir upplifa að þeir fái meiri hvíld út úr 15 mínútna slökun en nætursvefni á meðan aðrir líkja þessu við endurnærandi kríu. Hvaða ávinning sem við fáum út úr slökun þá er ljóst að flestir mega við meiri slökun á halda í sínu lífi.
Undirbúningur fyrir slökun
Við gætum þurft að skapa okkur bæði andrými og andrúmsloft fyrir slökun. Við gætum þurft að láta aðra vita að við ætlum að slaka á, til að verða fyrir sem minnstri truflun. Ef þú ert í umhverfi þar sem er mikið af hljóðum í kringum þig er þetta frábært tækifæri til að æfa þig í að leyfa hljóðum að flæða í gegnum þig án þess að bregðast við.
Til að líkaminn sé til í að slaka á getur verið gott að gera nokkrar æfingar áður en þú byrjar slökun. Stundum er þetta nauðsynlegt skref og stundum ekki. Ef maður hreyfir líkamann örlítið og jafnvel nær púlsinum aðeins upp er auðveldara fyrir líkamann að slaka á og við fáum meira út úr slökuninni.
Önnur leið til að ná að slaka á líkamanum er að spenna allan líkamann í nokkrar sekúndur og slaka svo vel á. Best er að endurtaka þetta nokkrum sinnum til að líkaminn geti náð þeirri slökun sem hann þarf.
Finndu þægilega stöðu þannig að allur líkaminn geti slakað á. Það gæti verið í rúmi, í góðum hægindastól eða á jógadýnu á gólfi. Reyndu að sleppa púða undir höfuð til að hryggurinn geti verið beinn alveg frá spjaldbeini upp í háls. Sumir þurfa púða undir hnén til að slaka á bakinu en aðrir geta legið flatir án óþæginda.
Smelltu hér ef þú vilt láta leiða þig í gegnum slökun 🙂
Leiðbeiningar fyrir slökun
Eftirfarandi eru leiðbeiningar um hvernig hægt er að ná góðri slökun. Ef þú frekar láta leiða þig í gegnum slökun þá geturðu nálgast slíka slökun hér.
- Leggstu á bakið með hendur niður með hliðum
- Breiddu yfir þig teppi
- Leyfðu lófum að vísa upp
- Ekki krossleggja fætur
- Lokaðu augunum
- Andaðu rólega, getur byrjað á að taka 2-3 djúpa andardrætti og leyfa svo önduninni að finna sinn náttúrulega takt.
- Sleppu ÖLLU- þú hefur gert allt sem þú getur á þessum tímapunkti og allt sem þú ættir að gera. Undirbúðu þig fyrir heilun, endurnýjun og slökun.
- Slepptu.
- Gefðu líkamanum og huganum meðvitað leyfi til að slaka á.
- Farðu í gegnum líkamann frá toppi til táar eða frá tá og upp úr og gefðu hverjum hluta leyfi til að slaka á og sleppa. Þú velur hversu nákvæmlega, hvort þú gefur tám, iljum og tábergi o.s.frv. leyfi til að slaka á eða bara fótum.
- Finndu hvernig líkaminn þyngist ofan í dýnuna.
- Gefðu þér nokkrar mínútur í algjöra slökun.
Að vekja líkamann eftir slökun
Andaðu djúpt nokrum sinnum. Byrjaðu að hreyfa fingur og tær og snúðu úlnliðum og ökklum í hringi. Teygðu þig, settu hendur upp yfir höfðuð og lengdu hrygginn. Snúðu upp á hrygginn með kattarteygjunni. Í kattarteygjunni seturðu hægri fót á vinstra hné, grípur í hægra hné með vinstri hendi og snúðu hnénu til vinstri hliðar þannig að mjaðmir fara í þá átt á meðan þú snýrð búk og höfði til hægri hliðar. Ekki fara lengra en hryggurinn leyfir og þú treystir þér til. Skiptu svo um fót, settu vinstri fót á hægra hné, gríptu í vinstri hné með hægri hendi og snúðu mjöðmum og hné til hægri en búk og höfði til vinstri. Nuddaðu saman höndum og iljum og náðu smá hita. Rúllaðu og ruggaðu svo á bakinu nokkrum sinnum áður en þú kemur upp í sitjandi stöðu.
Ertu tilbúin/n að láta leiða þig í gegnum slökun? – Smelltu þá hér