“Appreciation is an art and a lifestyle and a source of happiness and fulfillment. It’s called gratitude—an attitude of gratitude.”
6/27/84 Yogi Bhajan
Það er alls ekki alltaf auðvelt að finna fyrir þakklæti en þetta er samt eitt af því sem við getum þróað og þroskað með okkur og hreinlega æft okkur í 🙂 Það hefur sýnt sig í rannsóknum að sú tilfinning sem eykur hamingjuna hvað mest er þessi tilfinning, þakklæti. og hver vill ekki fá meiri hamingju inn í sitt líf 🙂
Mismunandi þakklætisæfingar
Prófaðu að skrifa niður 5 atriði sem fylla þig þakklæti. Horfðu á listann og finndu fyrir þakklætinu í hjartanu.
Ef við eigum erfitt að finna fyrir þakklæti getur verið gott að anda djúpt að sér nokkrum sinnum, leggja hendur á hjartað, loka augunum og einfaldlega spyrja í huganum: Hvað fyllir mig þakklæti núna? Hlustaðu á það sem kemur upp, þó þér finnist það kannski pínu skrítið 🙂
Ef við erum undir miklu álagi og streitu getur þetta verið erfiðara og þá getur verið gott að gefa sér tíma í slökun sem róar huga, líkama og sál áður en maður spyr þessarar spurningar (Meira um slökun hér). Þá fáum við frið til að finna fyrir þakklæti og líkaminn og/eða hugurinn eru ekkert að þvælast fyrir okkur á meðan.
Smelltu hér ef þú vilt láta leiða þig í gegnum góða slökun.
Hægt er að bæta við þessa slökun og þakka hverjum líkamshluta fyrir þjónustuna sem hann veitir okkur. Segja einfaldlega í huganum: TAKK !
Þakklætisbók
Það getur verið gott að eiga litla bók sem við geymum á ákveðnum stað til að skrifa í. Sumir eiga svona bók og geyma hana í veskinu sínu eða á náttborðinu eða á skrifborðinu í vinnunni. Skrifaðu dagssetningu efst og byrjaðu svo að skrifa 🙂 Það er yndislegt að geta lesið seinna hvað fyllti mann þakklæti þann daginn 🙂
Þetta er þakklætisdagbókin mín. Ég geymi hana við skrifborðið mitt og skrifa í hana þegar mér dettur í hug. Suma daga þarf ég ekki annað en að horfa á hana til að finna fyrir þakklæti. Ég er með tvær reglur (þú setur þínar eftir eigin hentugleika ef vill). Sú fyrri er að á listanum þarf að vera eitthvað nýtt sem var ekki á síðasta lista, ekki endilega allt en eitthvað. Mér finnst gott að ögra sjálfri mér aðeins þannig að ég skrifi ekki bara alltaf það sama. Önnur reglan er að ef ég á erfitt með að finna þakklæti þá skrifa ég 50 atriði, annars svona um 5 eða eins og andinn blæs mér í brjóst. Það koma nefnilega dagar þar sem það er erfiðara en aðra daga að finna fyrir þakklæti og þá þurfum við einmitt mest á því að halda.
Hvenær er best að gera þakklætisæfingar?
Alltaf? Já hvenær sem er í rauninni. Gott getur verið að skapa sér venju og því eru morgnarnir og kvöldin sérlega góður tími til að gera þakklætisæfingar. Tíminn rétt eftir að maður vaknar og áður en maður sofnar eru góðir til að safna sér saman, líta inn á við og finna fyrir þakklæti, hvort sem það er yfir einhverju stóru, stórkostlegu og miklu eða þessum litlu hlutum sem maður tekur svo oft sem sjálfsögðum hlut. Það getur verið ágætisslökun fyrir svefnin að telja upp mismunandi atriði sef fylla mann þakkæti og gott að sofna út frá slíkum hugsunum. Það er líka stórkostlegt að fara inn í daginn með hjartað fullt af þakklæti.
Þakklætiskrukkan
Þess vegna getur verið gaman að gera þetta að kvöldvenju fyrir fjölskylduna, að skrifa niður 3-5 atriði sem hægt er að vera þakklátur fyrir þann daginn. Þannig er hægt að safna í krukku, minningum og atriðum sem fjölskyldan er þakklát fyrir t.d. í eina viku, einn mánuð eða yfir heilt ár. Það þarf heldur ekki alltaf að vera eins gert. Suma daga má fjölskyldan gera sameiginlega miða á meðan aðra daga þá gerir hver fyrir sig. Hver fjölskylda útfærir þetta að sjálfsögðu á sinn hátt og eins og hentar hverju sinni. Síðan er hægt að safnast saman eftir ákveðin tíma, lesa miðana og búa þannig til fjölskylduþakklætisstund.
Veldu þína aðferð
Markmiðið er að þroska með sér viðhorf þakklætis og þannig auka hamingju og lífsfyllingu. Við getum verið mis langt á veg komin með það og svo erum við misstemmd eftir dögum. Hvaða aðferð heldurðu að gagnist þér best? Prófaðu þig áfram. Hvað fyllir þig þakklæti núna?
Gangi þér vel <3 og takk fyrir að lesa pistilinn <3
“Gratefulness will make you great.”
6/27/84 Yogi Bhajan