Ráðlegginga myndNú er komið að því! Eftir margra ára vinnu hefur Embætti landlæknis nú gefið út endurskoðaðar íslenskar ráðleggingar um mataræði hjá embætti landlæknis. Þetta eru ráðleggingar sem eru fyrir fullorðna og börn frá tveggja ára. Vert er að taka fram að þær eiga við heilbrigða einstaklinga enda þurfa aðrir sérhæfðari ráðleggingar en þessar.

Breyttar áherslur

Það eru engar stórkostlegar breytingar í þetta sinn heldur frekar breyttar áherslur. Ég er mjög ánægð með þessar nýju áherslur því nú eru ráðleggingarnar meira í mínum anda 😉 Það er meiri áhersla á mataræðið sem heild og gæði fitu og kolvetna frekar en magn. Einnig er lögð áhersla á mat úr jurtaríkinu. Það er matur eins og grænmeti, ávextir og ber, vörur sem innihalda heilkorn, baunir og linsur ásamt hnetum og fræjum. Þetta eru allt trefjarík matvæli frá náttúrunnar hendi og innihalda gæðakolvetni. Fitan sem kemur úr jurtaríkinu er líka þessi „gæðafita“ sem rætt er um.

Síðan er áfram áhersla á að borða fisk, bæði feitan og magran, fituminna kjöt, olíur og fituminni mjólkurvörur. Áfram er mælt með vatni til drykkjar. Mælt er með takmörkun á neyslu á unnum matvörur s.s. gosdrykkjum og sælgæti, kexi og kökum, snakki, skyndibita og unnum kjötvörum. Þessar matvörur eru oft ríkar af mettaðri fitu, sykri og/eða salti.

Áhætta á langvinnum fæðutengdum sjúkdómum er talin minni með þessum áherslum í mataræði og er það að sjálfsögðu einn af megintilgangi endurskoðaðra ráðlegginga um mataræði.

Áhersla á umhverfismál

Það sem er sérstaklega áhugavert og ánægjulegt fyrir mig sem líffræðing og næringarfræðing er áherslan á umhverfismál. Það vill líka svo skemmtilega til að ég tók umhverfisfræði og næringarfræði á sömu önn í háskólanum fyrir „örfáum“ árum. Þá hefði mig ekki grunað að þessi áhersla á umhverfismál myndi rata inn í ráðleggingar um mataræði þó að hin síðari ár hafi ég sjálft hafi lagt sífellt meiri áherslu á umhverfismál í matarinnkaupum og eldamennsku. Ef innkaupin og eldamennskan eru skipulögð fyrirfram er hægt að draga úr sóun á mat og vernda umhverfið á þann hátt. Eftir því sem við leggjum meiri áherslu á mat úr jurtaríkinu og minni á afurðir úr dýraríkinu þá takmarkar það losun gróðurhúsalofttegunda. Betri heilsa fyrir okkur og umhverfið. Allir græða 😉

Ráðleggingarnar í hnotskurn:

Hérna eru ráðleggingarnar í 10 liðum eins og þær eru settar fram hjá Embætti landlæknis.

  1. Fjölbreytt fæði í hæfilegu magni
  2. Ávextir og mikið af grænmeti. Borða 5 skammta af grænmeti og ávöxtum á dag eða minnst 500 g samtals. Safi telst ekki með í 5 á dag. Velja gjarnan gróft grænmeti eins og t.d. rótargrænmeti, spergilkál, hvítkál og blómkál.
  3. Heilkorn minnst tvisvar á dag. Æskilegt er að velja brauð og aðrar matvörur úr heilkorni.
  4. Fiskur tvisvar til þrisvar sinnum í viku. Mælt er með að ein af fiskmáltíðunum sé feitur fiskur.
  5. Kjöt í hófi. Velja lítið unnið, magurt kjöt. Takmarka neyslu á rauðu kjöti við 500 g á viku. Takmarka sérstaklega neyslu á unnum kjötvörum.
  6. Fituminni og hreinar mjólkurvörur. Ráðlagt er að velja sem oftast fituminni, ósykraðar eða lítið sykraðar mjólkurvörur án sætuefna. Hæfilegt magn eru 2 skammtar á dag.
  7. Mýkri og hollari fita. Feitur fiskur, lýsi, jurtaolíur, hnetur, fræ og lárperur eru góðar uppsprettur hollrar fitu.
  8. Minna salt. Velja lítið unnin matvæli, enda eru mikið unnin matvæli yfirleitt saltrík og takmarka notkun á salti við matargerð.
  9. Minni viðbættur sykur. Drekka lítið eða ekkert af gos- og svaladrykkjum og gæta hófs í neyslu á sælgæti, kökum, kexi og ís.
  10. Taka inn D-vítamín sem fæðubótarefni, annaðhvort lýsi eða D-vítamíntöflur

Að lokum

Eins og sést á þessum 10 atriðum er mikil áhersla á aukna neyslu á mat úr plönturíkinu og lítið unna matvöru og er það vel. Safa er ekki lengur hægt að telja sem skammt af ávöxtum og grænmeti eins og áður var og sérstök áhersla á gróft grænmeti. Samkvæmt landskönnun á mataræði 2010-2011 þá getum við vel bætt okkur í ýmsu á listanum á meðan við erum í góðum málum í öðru en eins og við vitum getur lengi gott batnað 🙂

Takið eftir að D-vítamínið er þarna í heiðurssæti nr. 10 enda okkur sérlega mikilvægt og lífsnauðsynlegt hérna uppi á Íslandi 😉

Nú er bara að innleiða þessar áherslur smátt og smátt inn í okkar daglega líf og halda áfram að njóta þess að borða og vera til 🙂

Ragnheiður

Frekari upplýsingar á vef Embætti landlæknis

 Heimildir og mynd af vef Embætti landlæknis