Margir velta eflaust fyrir sér af hverju næringarfræðingar leggja oft áherslu á að borða ávexti og grænmeti. Til að byrja með eru þessar fæðutegundir mjög næringarríkar og veita líkamanum fjölmörg vítanín og steinefni sem hann þarfnast fyrir eðlilega líkamsstarfssemi.  Ávextir og grænmeti innihalda líka mikið vatn sem er kostur. Hátt innihald trefja eykur síðan enn á hollustuna en trefjar eru nauðsynlegar fyrir góða meltingu. Mælt er með 5 skömmtum af grænmeti og ávöxtum á dag eða 500 grömmum, þar af 2 skammtar af grænmeti og 2 skammtar af ávöxtum.

EN hvernig náum við því? Í fyrsta lagi með því að vera meðvituð um neyslu okkar á ávöxtum og grænmeti. Ef við erum meðvituð eykst einbeitingin og við förum að taka eftir því hvernig og hvað við borðum. Með því að taka ákvörðun um að auka neysluna þá aukum við meðvitundina. Í öðru lagi þurfum við að setja okkur markmið og framkvæma. Það er oft hægara sagt en gert en með því að setja SMART (Sértæk; Mælanleg; Aðgengileg; Raunhæf; Tímasett) markmið, meta hindranir og leiðir til lausna eru okkur allir vegir færir í þessu sem og öðru. Dæmi um slík markmið gætu verið að borða ávöxt í morgunmillimál 5 sinnum í viku næstu 3 vikur eða hafa rótargrænmeti með matnum 3 sinnum í viku í mánuð. Sértæk, mælanleg, aðgengileg, raunsæ og tímasett markmið. Talað er um að það taki 3 vikur að skapa nýjar venjur og því mikilvægt að markmiðin séu tímasett í a.m.k. 3 vikur. Eftir það er hægt að velja sér ný og jafnvel meira krefjandi markmið og þannig smátt og smátt skapað nýjar venjur sem auka neyslu á ávöxtum og grænmeti.

Mikilvægt er að hafa fjölbreytnina í fyrirrúmi í mataræði en það er sérstaklega mikilvægt þegar kemur að grænmeti og ávöxtum. Áhrif næringarefna í ávöxtum og grænmeti á heilsu aukast eftir því sem fjölbreytnin er meiri. Einnig er áhrifin betri ef við borðum ávextina og grænmetið heldur en ef við tökum næringarefnin inn í töflum.

Byrjaðu strax í dag! Veldu markmið og taktu fyrsta skrefið í átt að betri heilsu.