Ég var búin að prófa alls konar jóga áður en ég fór í fyrsta Kundalini jógatímann minn. Ég man ekki hvort það var í fyrsta eða öðrum tíma sem ég hugsaði „já, loksins. Ég er búin að finna „mitt“ jóga. Hér á ég heima.“ Ég þurfti ekki að leita lengra. Það er ótrúlega dýrmætt.

Það eru liðin u.þ.b. 10 ár. Síðan þá hef ég sótt tíma, stundum reglulega, stundum stopult. Ég hef stundað jóga heima, stundum reglulega, stundum stopult.  Sumar æfingarnar fannst mér skrítnari en aðrar en það breytti því ekki að ég sveif út úr hverjum tíma. Ég fór í kennaranám í Kundalini jóga. Það var það besta sem ég hef gert fyrir sjálfa mig. Það hafa komið pásur í iðkun mína á Kundalini jóga en ég leita alltaf aftur í þetta form af jóga.

Af hverju hentar Kundalini jóga mér betur en annað?
20150925_214116

Kundalini jóga er mjög fjölbreytt.

Kundalini yoga er kröftugt og umbreytandi jóga sem þjálfar huga og líkama. Það sem dró mig fyrst að þessu jóga var einmitt hversu kröftugt það er. Ég fékk að hreyfa mig nógu mikið í tímunum. Ég hafði nefnilega fram að þessu ekki haft þolinmæðina sem þurfti í að standa kyrr í jógastöðum. Ég fékk meira segja harðsperrur eftir tíma og fólk trúði ekki að ég hefði fengið þær eftir jógatíma 🙂

Kundalini jógaæfingar eru mjög fjölbreyttar en margar þeirra eru hreyfingar frekar en stöður og sumar hafa öndun í takt við hreyfinguna. Það er mjög hjálpleg fyrir óþolinmóða jóga eins og mig því þá fær hugurinn eitthvað verkefni og fær ekki tækifæri til að láta sér leiðast eða koma inn með hugsanir sem mega bíða. Þá fæ ég tækifæri til að hvíla hugann. Hugleiðslurnar eru einnig margar þannig, þú færð líkamanum og huganum verkefni svo þú náir að kyrra hann.

Mér fannst líka stór kostur hversu fjölbreyttir tímarnir voru. Hver tími er þó byggður upp á sama hátt þ.e. upphitun, kría (röð æfinga), slökun og hugleiðsla. Krían hefur ákveðið markmið og það er sjaldgæft að hitta á tíma þar sem það sama er tekið fyrir tvisvar í röð. Það liðu mörg ár áður en ég fattaði að ég hafði gert einhverjar kríur (röð æfinga) áður.

Mér finnst líka gott að láta minna mig á að beina athyglinni inn á við. Það er engin keppni í jóga, þú ert bara að gera þitt besta miðað við aðstæður. Þú hlustar á þinn líkama og leyfir honum að vera þitt leiðarljós.

Hugleiðsla
aquarian_teacher_-_cropped_and_smallitoka6HFtwBR

Yogi Bhajan, Ph.D. kom með Kundalini Yoga til Vesturlanda á sjöunda áratugnum.

Til að byrja með mætti ég bara í tíma en fljótlega langaði mig að æfa mig í hugleiðslu heima. Kennarinn minn hjálpaði mér að finna hugleiðslur og ég hugleiddi heima hjá mér. Það tók nokkuð mörg ár að gera hugleiðslu að daglegri venju. Fyrst náði ég að hugleiða daglega í nokkra daga eða jafnvel vikur en svo varð hugleiðslan út undan í daglegu amstri. Ég náði þó einhvern tímann að hugleiða daglega í 3 mánuði samfellt og ég man ennþá hvað það var mikill sigur fyrir mig. Það var svo ekki fyrr en eftir að ég fór í Kundalini jógakennaranámið að hugleiðsla varð hluti af dagsdaglegu lífi. Ég hef tekið pásur en sem betur fer hafa þær ekki enst lengi. Ég finn það nefnilega mjög fljótt á sjálfri mér ef ég sleppi þessari daglegu venju. Nætursvefn er mér ótrúlega mikilvægur og ef ég sleppi hugleiðslunni líður ekki á löngu þar til ég fer að sofa verr á nóttunni.

Það er innbyggt í allt jóga að þjálfa athyglina og þannig tengist það núvitund og að nærast í núvitund. Við þjálfumst í að beina athyglinni að því sem við erum að gera það og það sinnið. Þannig getur við yfirfært færni sem við öðlumst í jógatímanum yfir í dagsdaglega lífið og það innifelur að sjálfsögðu að borða. Aðferðirnar í ,,Næringu og núvitund” þjálfa athyglina en með áherslu á mat og matarvenjur. Þannig vinnur þetta allt saman og við njótum góðs af.

Hvað finnst þér best til að þjálfa athyglina og ná hugarró?

Njóttu dagsins,

Ragnheiður