Hvernig líður þér þegar þú skilur eftir mat á disknum þínum?

Ég veit auðvitað ekki með þig en ég fékk að heyra það í æsku að maður ætti ekki að leifa mat. Ég fékk líka að heyra um börnin í Afríku sem fengu engan mat.

Í fullkomnum heimi myndi ég alltaf skammta mér nákvæmlega eins og ég þarf á diskinn. En það eru svo ótal mörg atriði sem hafa áhrif á það hvort mér tekst það. Ef ég hef ekki náð að halda reglu á máltíðunum mínum yfir daginn þá gæti ég verið of svöng þegar ég skammta mér á diskinn og skammta mér þá meira en ég þarf. Stundum gleymi ég mér og skammta mér á diskinn af gömlum vana. Stundum er diskurinn stærri en ég er vön. Stundum er eitthvað í boði sem ég fæ sjaldan og ég ætla sko ekki að missa af því. Kannastu við eitthvað af þessu?

Þegar ég fór svo að æfa mig mjög markvisst í að nærast í núvitund og að hlusta á líkamann minn þá fékk ég tækifæri til að taka meðvitaða ákvörðun um að annað hvort klára af disknum eða að leifa matnum þegar ég var orðin passlega södd. Í þessum aðstæðum takast á margir mismunandi hlutar af mér. Það er hlutinn sem má ekki leifa mat, þessi sem er alinn upp við það og líka umhverfisverndarsinninn í mér sem vill ekki leggja til matarsóunar. Svo er það skynsami hlutinn sem segir að það sé í lagi að leifa mat ef ég sé orðin södd og það sé kostur að hafa hlustað á líkamann. Stundum ákveð ég að geyma afganginn. Stundum ákveð ég að klára, ef það er það sem ég vil. Það er samt talsvert síðan að ég hef borðað þannig yfir mig að ég geti ekki hugsað mér að borða næstu 4 daga þegar að máltíðinni lýkur.

Það sem kemur mér samt alltaf mest á óvart er þessi hugsun að ég sé að gera eitthvað af mér ef ég leifi mat. Það eru nú meira en 20 ár síðan ég flutti að heiman þannig að það er spurning hver ætti að setja ofan í mig með það?

Þannig þegar ég tek eftir þessari hugsun þá nýti ég nokkrar aðferðir eftir því hvernig ég er stemmd. Stundum dugar að draga djúpt inn andann og hugsunin hverfur. Stundum nota ég hugræna atferðismeðferð og spyr sjálfa mig: Er þetta nú alveg rétt? Og reyni að skoða svörin með forvitni og án þess að dæma (núvitund). Síðan hef ég í seinni tíð verið að prófa mig áfram með fyrirgefningu. Ég fyrirgef sjálfri mér fyrir þessar hugsanir, ég fyrirgef fólkinu sem kom þessum hugsunum inn, það var bara með mína bestu velferð í huga og byggði á sinni reynslu.  Ég reyni að sleppa takinu og senda kærleika til mín og þeirra. Stundum tek ég bara mjög snögga ákvörðun um að hætta að borða. Það er nefnilega ekki alltaf tími til að fara í sjálfsvinnu við matarborðið og það er líka í lagi 😉

Ég hvet þig til að prófa að skilja eftir nokkra bita á disknum og sjá hvernig þér líður. Þú getur prófað einhverja af mínum aðferðum eða eitthvað annað. Þú velur.

Gangi þér vel 🙂
Ragnheiður