Þegar að kemur að því að breyta mataræði til betri vegar fyllast margir óöryggi og vita ekki hvar þeir eiga að byrja. Auðvitað er einstaklingar á mismunandi stað þegar þeir eru að byrja að huga að bættu mataræði og því er ekkert eitt ráð sem hentar öllum en eitt það fyrsta sem hafa ber í huga er regla máltíða.

Þegar talað er um reglulegar máltíðir hugsa sumir.. ja.. ég borða reglulega, ég borða morgunmat og kvöldmat. Dugar það ekki? Kannski ef þú kemur inn 5 skömmtum af grænmeti og ávöxtum, 2 skömmtum af góðum kalkgjafa, o.s.frv. og ef þér líður vel, heldur kjörþyngd og hefur kraft og orku allan daginn. En það er ekki líklegt, er það!?

Þegar rætt er um reglulegar máltíðir er oft átt við 3 aðalmáltíðir og 2-3 millibita þ.e. morgunmat, hádegismat og kvöldmat ásamt 2-3 millibitum yfir daginn. Gott getur verið að nýta millibitana til auka hlut ávaxta og grænmetis. Hver og einn verður þó að finna út hvaða máltíðamunstur hentar best.

Með því að leggja áherslu á reglulegar máltíðir náum við að halda góðri stjórnun blóðsykurs yfir daginn og aukum líkur á skynsamlegu fæðuvali. Því ef við föllum niður í blóðsykri er hætta á að við grípum bara það sem hendi er næst í stað þess að geta stoppað og hugsað hvað er best fyrir okkur núna.

Verum forvitin. Gerum tilraunir á okkur sjálfum og finnum út hvað virkar best fyrir okkur sjálf.