Við eigum til að rugla saman hvenær við þurfum á mat að halda og hvenær við þurfum á annars konar næringu að halda s.s. göngutúr, jóga, nuddi, hugleiðslu, baði með kertaljósi, svefni eða góðu samtali við vin/vinkonu. Það getur verið gott að vita muninn á líkamlegri svengd og svengd tengdri tilfinningum þegar kemur því að meta hvers konar næringu við þurfum á að halda.
Það hefur stundum verið gripið í þá skýringu á muninum á líkamlegri svengd og svengd tengdri tilfinningum að þegar maður sé líkamlega svangur þá verði maður saddur og taki eftir því en þegar svengdin er tengd tilfinningum þá verði maður ekki saddur sama hversu mikið er borðað.
Ég lít á þetta sem miklu flóknara samband. Í fyrsta lagi er það ekki það sama atriðið að átta sig á að maður sé líkamlega svangur, að átta sig á að maður sé saddur og að geta stoppað til að taka ákvörðun um hvort maður vill halda áfram að borða eða ekki. Þetta eru að minnsta kosti 3 mismunandi atriði sem þarf oft að endurlæra því öll höfðum við þetta innbyggt þegar við fæddumst.
Í öðru lagi þá er eðlilegt að nota mat til að róa okkur og sefa, það lærðum við líka. Það að borða þegar við erum svöng veitir vellíðan. Sumir átta sig ekki einu sinni á því að segja ekki að þeir séu svangir fyrr en þeir eru orðnir þreyttir og/eða pirraðir. Þegar þannig er ástatt er auðvelt að breyta vanlíðan í vellíðan. Við erum misvakandi fyrir merkjum líkamans og stundum borðum við of mikið eða meira en við ætluðum okkur. Sumir eiga síðan auðveldara með að „jafna út“ það út síðar en aðrir þ.e. ef þeir borðuðu mikið í einni máltíð þá borða þeir minna í þeirri næstu.
Þess vegna er oft ekki nóg að læra að meta líkamlega svengd og seddu heldur gætum við líka þurft að skoða við hvaða aðstæður við notum mat til að sefa og róa okkur og hvernig mat við notum (mitt gisk er súkkulaði, ís og kex).
Það sem skiptir máli er að við eigum í handraðunum fleiri aðferðir en að borða til að veita vellíðan og minnka streitu, þvi að við þurfum líka á hæfilegri hreyfingu og hvíld svo við gleymum nú ekki félagslegum samskiptum. Samtal við góða vini getur gert kraftaverk þegar þannig stendur á.
Njóttu dagsins,
Ragnheiður
P.s. Það eru reyndar fleiri ástæður fyrir því að við borðum án þess að vera líkamlega svöng en látum það liggja á milli hluta í bili.